Í nærsýni kemur brennipunkturinn framan við sjónhimnu og því er myndin óskýr. Langalgengasta skýringin er sú að augað er of langt, eins og egg á hlið. Fjarlægir hlutir verða óskýrir, en verða skýrari þegar nær dregur auganu. Hartnær fjórðungur fólks er nærsýnn. Nærsýni þróast oft á unglingsárum og virðast umhverfisáhrif þar hafa eitthvað að segja, s.s. bókalestur. Nærsýni er algengari í nútímaþjóðfélögum og í sumum þjóðfélögum er talað um nærsýnifaraldur. Nærsýni hættir yfirleitt að aukast um og eftir tvítugt.
Í fjarsýnum einstaklingi lendir brennipunktur ljósgeislans fyrir aftan sjónhimnuna, oftast vegna þess að augað er of stutt, eins og egg „upp á rönd“. Fjarsýnir sjá yfirleitt afar vel frá sér framan af ævi ef fjarsýnin er ekki þeim mun meiri. Á einhverjum tímapunkti hætta síðan fjarsýnir að sjá frá sér án hjálpar gleraugna og þurfa því gleraugu eða snertilinsur við að sjá skarpt, bæði nær sér og fjarri sér. Sumir þurfa gleraugu strax frá barnsaldri, ef fjarsýnin er nægilega mikil. Sumir fjarsýnir upplifa allt í einu vandamál við að sjá nálægt sér fyrst og síðan er eins og sjónin „hrynji“, og þeir þurfa allt í einu að nota gleraugu við allt. Þetta er dæmigerð saga einstaklings með væga fjarsýni, sem þá þarf að fara að nota gleraugu milli þrítugs og fertugs. Mjög mikilvægt er að rugla ekki saman fjarsýni og aldursbundinni fjarsýni (stundum kölluð lesfjarsýni eða ellifjarsýni)“, sem eru tveir gjörólíkir hlutir og er aldursbundinni fjarsýni lýst síðar hér á eftir.