fbpx

Mikið er lagt upp úr tannheilbrigði og gildi þess að fara reglulega til tannlæknis. Á vef Tannlæknafélags Íslands er mælt með skoðun heilbrigðra tanna að minnsta kosti einu sinni á ári og tvisvar á ári ef um tannheilsuvanda er að ræða. Engar slíkar reglur hafa verið settar fram hér á landi um augun. Áherslumuninn má líka sjá á vefnum, þar sem íslenskar greinar um augnheilsu, augnheilbrigði og augnheilsugæslu eru miklu færri en sambærilegar greinar um tennur, og raunar fjalla margar þeirra um það hversu oft á að fara með hunda í augnskoðun. Alþjóðlegar reglur mæla með eftirfarandi tíðni á augnskoðunum:

Undir 40 ára aldri: Á 5-10 ára fresti

40-54: 2-4 ára fresti

55-64: 1-3 ára fresti

65 ára og eldri: 1-2 ára fresti

Það er oft gott að hugsa í þrennum, og það á líka við þegar kemur að augnsjúkdómum. Þrír stóru augnsjúkdómarnir eru samanlagt langalgengasta orsök fyrir sjónskerðingu, sérstaklega þegar aldurinn færist yfir. Það verður þó að muna að þeir geta komið upp hjá yngra fólkinu, þannig að allir ættu að fara í augnskoðun á a.m.k. 10 ára fresti og svo oftar eftir fimmtugt.

En þrir stóru augnsjúkdómarnir eru þessir:

1. Ský á augasteini
2. Gláka
3. Hrörnun í augnbotnum, stundum kölluð kölkun í augnbotnum.

Af þessum þremur er auðveldast að eiga við ský á augasteini, þar sem augasteinsskipti taka aðeins 10 mínútur. Þeir sem eru með ský á augasteini, sjá eins og það sé móða á milli glerja í augasteininum, glæru linsunni sem liggur framan til í auganu. Gláka er alvarlegur ættgengur augnsjúkdómur og þarf að fylgjast vel með augunum ef gláka er í ættinni.  Þegar um gláku er að ræða er þrýstingur inni í auganu oft of hár, skemmir sjóntaugina og þar með sjón.Oftast er auðvelt að ráða við gláku með augndropum en stundum þarf að grípa til skurðaðgerða. Hrörnun í augnbotnum er alvarlegastur af þessum þremur, ekki síst þar sem erfiðast er að eiga við hann. Sjónhimnan er himnan sem þekur augað að innan, einskonar veggfóður úr taugavef. Í þessum sjúkdómi skemmist hluti sjónhimnunnar þar sem skarpa sjónin er. Framfarir hafa orðið hraðstígar á undanförnum árum varðandi meðhöndlun hrörnunar í augnbotnum og verður vonandi hægt að hindra sjóntap af völdum sjúkdómsins í framtíðinni.

En mikilvægast er þetta: Fara til augnlæknis reglulega og hindra sjóntapið áður en það verður ef möguleiki er á, því þessa sjúkdóma er hægt að greina snemma og oft hindra sjónskerðingu af völdum þeirra.