fbpx

Hvað eru þurr augu?

Þurr augu eru afar algengt vandamál. Líklegt er að u.þ.b. 15 000 íslendingar þjáist af þurrum augum. Í þessum sjúkdómi framleiða augun ekki nægilega mikið af tárum eða tárin eru ekki nægilega vel samsett og þau gufa upp of fljótt. Algengasta einkenni þurra augna er aðskotahlutstilfinning og hún er oftast verst á morgnana. Sérstaka athygli vekur að eitt megineinkenni þurra augna er aukið táraflæði og lýsir fólk því oft svo að þegar það fari út í íslenska rokið fari tárin að renna niður vangana. Í mörgum tilvikum er um að ræða öldrunaráhrif á tárakirtlana en þó getur yngra fólk líka upplifað þurr augu . Talið er að um 3/4 fólks 65 ára og eldra muni fá þurr augu. Þurr augu eru algengari hjá konum og koma oftar hjá þeim konum sem eru barnshafandi eða eftir tíðahvörf. Líklega eru um 3000 Íslendingar með þurr augu í tengslum við svokallaðan Sjögren’s sjúkdóm og/eða gigtarsjúkdóma og aðra sjálfsofnæmissjúkdóma og 90% þeirra eru konur. Fólk með ofnæmi og snertilinsunotendur eru einnig útsettari fyrir því að fá einkenni þurra augna.

Helstu einkenni þurra augna:

  • Táraflæði
  • Óskýr sjón
  • Aðskotahlutstilfinning, pirringur
  • Óþægindi í augum eftir tölvuvinnu, horfa á sjónvarp eða lestur
  • Roði í augum

Mörgum þykir einkennilegt að aukið táraflæði sé eitt algengasta einkenni þurra augna. Þessi tár myndast vegna þess að augað verður “auðertanlegt” og viðkvæmt fyrir t.d. roki og hita, t.d. við hitablástur í bifreiðum. Þessi tár myndast í stóru tárakirtlunum fyrir ofan augun og innihalda meira vatn en venjulegu tárin okkar. Þau renna því niður vangana en taka ekki þátt í að smyrja augun eins og venjulegu tárin gera.

Hvað veldur?

Oft er ekki unnt að greina ástæður fyrir þurrum augum. Í þurrum augum hefur orðið truflun á framleiðslu tára í svokölluðum tárakirtlum. Við erum með einn stóran tárakirtil fyrir ofan augun og svo marga smærri víðsvegar um slímhúð augans. Litlu tárakirtlarnir mynda slím- og fituhluta táranna, sem eru afar mikilvægur hluti táranna sem sjá um smurningu augans frá degi til dags. Stóri tárakirtillinn býr til tilfinningatár og tár sem koma fram við ertingu. Þegar við blikkum augum dreifast tárin yfir augun og fara svo loks ofan í göng sem eru staðsett í augnkróknum. Göngin liggja frá augum niður í nef, eins konar niðurfall fyrir tárin.

Líkt og áður sagði eru þurr augu algengari í ýmsum gigtarsjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum og algengari meðal kvenna en karla. Ýmislegt utanaðkomandi getur valdið eða viðhaldið þurrum augum:

Lyf: Mörg lyf valda þurrum augum, s.s. slímhúðarþurrkandi lyf (decongestants), mörg ofnæmislyf, þvagræsilyf, betablokkar (háþrýstingslyf), ýmis svefnlyf, þunglyndislyf, verkjalyf. Þess má geta að alkóhól eykur táraframleiðslu tímabundið en fráhvarfið (timburmenn) veldur augnþurrki.

Snertilinsur: Valda oft þurrum augum vegna þess að linsurnar soga í sig tár og minnka aðgengi tára að hornhimnu.

Tölvunotkun: Við blikkum um 40% sjaldnar þegar við horfum á tölvuskjá heldur en bók. Þetta veldur aukinni uppgufun tára. Viftur í tölvum geta einnig þurrkað upp andrúmsloftið í kringum tölvuna.  Athyglisvert er að fartölvur þurrka augu meira upp en borðtölvur vegna styttri fjarlægðar tölvu frá augum notandans.

Oftast er ekki hægt að lækna þurr augu en unnt er að meðhöndla einkenni sjúkdómsins. Þekking og fjöldi meðferðarleiða hefur aukist mjög á síðustu árum.

Oftast er byrjað á að nota gervitár, sem fást án lyfseðils í apótekum. Forðast skal að nota dropa sem gera augu hvítari (s.s. Visine). Gervitár eru til í dropa- hlaup- og smyrslformi. Gervitárahlaup og smyrsl eru fyrst og fremst notuð fyrir svefn, en þau duga lengur en venjuleg gervitár. Nýlega eru komin lyf á markaðinn sem auka táraframleiðslu (cyclosporin-A, Restasis) og talið er að sumar fitusýrur, þar á meðal Omega-3 (m.a. í lýsi) geti minnkað einkenni þurra augna.

Notkun sérstakra tappa eða stauta í op útfærsluganga tára í hvörmum augna til að hefta rennsli táranna niður í nef hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár.  Í sumum tilvikum er einnig hægt að loka endanlega fyrir táragangaopin.