LASIK er lasermeðferð sem er notuð til að leiðrétta nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.  Með þessari aðgerð getur einstaklingur orðið minna háður gleraugum og snertilinsum.  Gleraugu eru hamlandi við útiveru og íþróttir og stundum bæta gleraugu ekki nægilega vel úr sjón þeirra sem eru með mikla nærsýni eða sjónskekkju.  Að vera minna háður eða óháður gleraugum getur verulega bætt lífsgæði margra einstaklinga.  Gufa úr sundlaug, móða af hestum, innan á vélhjólahjálmi eða fitubrák á glerinu í miðri fjallgöngu.  Margir geta nýtt sér snertilinsur.  Þrátt fyrir að þær veiti frelsi frá gleraugum geta þær aukið á augnþurrk og augnofnæmi.  Í alvarlegum tilvikum geta þær skaðað yfirborð hornhimnu vegna súrefnisskorts og jafnvel valdið alvarlegum augnsýkingum sem geta skaðað sjón og jafnvel valdið blindu. 

Í forskoðun fyrir LASIK-aðgerð er athugað hvort þú sért kandidat í laseraðgerð.  Þessi atriði skipta þá sérstaklega máli:

1. Stöðugt sjónlag (þ.e. ekki breyting á gleraugnavottorði) í 2 ár

2. Heilbrigð augu að öðru leyti en að vera með sjónlagsgalla.  Einstaklingar með augnsjúkdóm eins og keiluglæru, gláku, eða ský á augasteini eru ekki góðir kandidatar í aðgerð.   

3. Hornhimnur mega ekki vera of þunnar, kúptar eða of flatar.  

4. Heilbrigði almennt skiptir einnig máli.  Einstaklingar með alvarlega sjálfsofnæmissjúkdóma, sykursýki, bandvefssjúkdóma og gigtsjúkdóma eru ekki heppilegir kandidatar í aðgerð.  

5. Væntingar skipta miklu máli.  Við viljum að einstaklingar spyrji spurninga fyrir aðgerð til að átta sig á kostum og göllum hennar.  Við erum ólík innbyrðis og með mismunandi sjónþarfir.  Eftir 45 ára aldur er t.d. líklegt að viðkomandi þurfi lesgleraugu til að lesa smátt letur ef framkvæmd er hefðbundin LASIK-aðgerð.  Sé framkvæmd Presbymax aðgerð þá er viðkomandi meira og minna laus við gleraugu bæði frá sér og nær sér en nær hugsanlega ekki alveg sömu skerpu frá sér og sá sem fer í hefðbundna meðferð.  Því er nauðsynlegt að hver og einn átti sig vel á því fyrirfram hvað henti sér best.