fbpx

Þegar aldurinn færist yfir okkur harðnar augasteinninn.
Augasteinninn er staðsettur fyrir aftan lithimnu og er aftara linsukerfi augans, en hornhimnan er það fremra.  Þetta gerist ekki allt í einu, heldur smám saman.  Þegar við erum ung er augasteinninn mjúkur og getur breytt sér í „plúslinsu“, þ.e. safnlinsu, þegar við horfum á eitthvað nálægt okkur.  Þetta verður erfiðara með aldrinum og milli 40 og 45 ára aldurs hættum við að geta fókuserað á hluti nálægt okkur og þurfum að setja plúsgleraugu á okkur til að lesa, horfa á tölvu og senda símaskilaboð.  Þar sem enginn sleppur undan þessu er ekki hægt að kalla aldursbundna fjarsýni, eða ellifjarsýni, sjúkdóm.  Mörgum finnst þetta þó truflandi og ýmsum aðferðum er nú unnt að beita til að bæta úr þessu.  Nokkrar þeirra byggja á því að skipta um augastein og setja augastein í stað þess sem fyrir var sem er þeirrar náttúru að geta hreyfst fram á við þegar horft er á eitthvað nálægt sér.  Aðrir augasteinar eru með mismunandi svæði sem fókusera á mismunandi vegalengdir.  Þessir gerviaugasteinar hafa einnig verið kallaðir lífsstílslinsur.  Presbymax laseraðgerð byggir á því síðarnefnda, nema hér er um að ræða aðgerð á hornhimnu eingöngu, en ekki farið inn í augað og skipt um augastein.

Almennt er talið að Presbymax eigi betur við hjá þeim sem eru 45-60 ára gamlir, en augasteinsaðgerð með lífsstílslinsur eigi betur við eftir sextugt.  Þetta er þó matsatriði og einnig má nefna að Presbymax aðgerð er talin eiga vel við hjá þeim sem hafa farið í hefðbundna augasteinsaðgerð og vilja auka möguleika sína til að geta lesið án lesgleraugna.

Dr. Michael Stade er augnlæknir við Bad Laer lækningamiðstöðina í Saxlandi í Þýskalandi.  Hann fór í Presbymax meðferð sjálfur þegar hann var 54 ára gamall á tækinu sem hann notar dags daglega. Honum segist svo frá að árangurinn hafi verið framar öllum vonum, aðeins þremur vikum eftir aðgerð hafi sjón bæði nær og fjær verið orðin skörp og hann sé alla jafna laus við gleraugu við dagleg störf. Hann notaði áður fjölfókussnertilinsur en fannst þær óþægilegar í meðförum.  Hann hafi heillast af sterkum vísindalegum grunni á bak við aðgerðina og hinn góða árangur sem komið hefur út úr rannsóknum á henni.  Hann telur þetta vera bestu meðferð við vandamálum tengdum aldursbundinni fjarsýni.