fbpx

AUGLJÓS laser augnlækningar

Upplýsingar fyrir LASIK

Mjög mikilvægt er að lesa þetta áður en að aðgerð kemur.

Inngangur

Hvað þýðir orðið LASIK?  LASIK er skammstöfun yfir hugtakið „Laser Assisted Intrastromal Keratomileusis“, sem þýðir á íslensku „breyting á yfirborði hornhimnu með hjálp lasertækni“.  Skammstöfun á þessu yrði BÁYHMHL, þannig að við höldum okkur við LASIK.  Þessi tækni kom fram á sjónarsviðið í byrjun 10. áratugarins í kjölfar tölvutækninnar, eins og svo margt annað.  Lasergeislarnir sem notaðir eru í þessari aðgerð eru þeir sömu og eru notaðir við að útbúa kísilflögurásirnar í tölvur.  Hugmyndin að nota þessa sömu geisla til að móta yfirborð hornhimnu leiddi til byltingar á sviði augnlæknisfræði sem við þekkjum nú öll sem LASIK-aðgerðina.  Milljónir slíkra aðgerða hafa verið framkvæmdar um allan heim og þessi aðgerð er nú ein algengasta aðgerð á Vesturlöndunum.

LASIK-aðgerðir lagfæra það sem kallaðir hafa verið sjónlagsgallar, þ.e. nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja.  Þessi bæklingur lýsir laseraðgerðinni, valkostum öðrum en aðgerð, hugsanlegri áhættu og kostum aðgerðarinnar.  Þessar upplýsingar koma vitanlega ekki í stað viðtals við lækni fyrir eða eftir aðgerð.  Við hvetjum þig til að spyrja um aðgerðina sjálfa í forskoðuninni, spyrja t.d. um aðra valkosti, áhættur, kosti og ókosti.  Við hvetjum þig líka til að skoða vel aðrar vefsíður til að allar upplýsingar séu við hendina þegar ákvörðun er tekin.

Hvað er nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja?

Augað hefur tvö linsukerfi, það fremra, hornhimnu og það aftara, augastein.  Bæði kerfin brjóta ljósið, þannig að það komi á réttan stað á sjónhimnu, í því sem kallað er í daglegu tali „fókus“, eða brennipunktur.  LASIK-aðgerð er framkvæmd á hornhimnunni, fremra linsukerfinu og er ekki farið inn í augað í aðgerðinni, heldur aðeins unnið utan á því.  Í eðlilegu auga er myndin „í fókus“ á sjónhimnunni án hjálpar gleraugna eða snertilinsa.  Lendi brennipunkturinn framan eða aftan við sjónhimnu kallast það sjónlagsgalli.  Sjónlagsgallar skiptast í nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.

Nærsýni

Í nærsýni kemur brennipunkturinn framan við sjónhimnu og því er myndin óskýr.  Langalgengasta skýringin er sú að augað er of langt, eins og egg á hlið.  Fjarlægir hlutir verða óskýrir, en verða skýrari þegar nær dregur auganu.  Hartnær fjórðungur fólks er nærsýnn.  Nærsýni þróast oft á unglingsárum og virðast umhverfisáhrif þar hafa eitthvað að segja, s.s. bókalestur.  Nærsýni er algengari í nútímaþjóðfélögum og í sumum þjóðfélögum er talað um nærsýnifaraldur.   Nærsýni hættir yfirleitt að aukast um og eftir tvítugt.

Fjarsýni

Í fjarsýnum einstaklingi lendir brennipunktur ljósgeislans fyrir aftan sjónhimnuna, oftast vegna þess að augað er of stutt, eins og egg „upp á rönd“.  Fjarsýnir sjá yfirleitt afar vel frá sér framan af ævi ef fjarsýnin er ekki þeim mun meiri.  Á einhverjum tímapunkti hætta síðan fjarsýnir að sjá frá sér án hjálpar gleraugna og þurfa því gleraugu eða snertilinsur við að sjá skarpt, bæði nær sér og fjarri sér.  Sumir þurfa gleraugu strax frá barnsaldri, ef fjarsýnin er nægilega mikil.  Sumir fjarsýnir upplifa allt í einu vandamál við að sjá nálægt sér fyrst og síðan er eins og sjónin „hrynji“, og þeir þurfa allt í einu að nota gleraugu við allt.  Þetta er dæmigerð saga einstaklings með væga fjarsýni, sem þá þarf að fara að nota gleraugu milli þrítugs og fertugs.  Mjög mikilvægt er að rugla ekki saman fjarsýni og aldursbundinni fjarsýni (stundum kölluð lesfjarsýni eða ellifjarsýni)“, sem eru tveir gjörólíkir hlutir og er aldursbundinni fjarsýni lýst síðar hér á eftir.

Sjónskekkja

Í nærsýni er augað of langt en í fjarsýni er augað of stutt.  Hvað er þá sjónskekkja eiginlega?  Í sjónskekkju er hornhimnan bjöguð.  Hornhimnan á að vera eins og glær kúpull framan á auganu, gjarnan er talað um að hún eigi að vera eins og evrópskur fótbolti í lögun, þ.e. kúlulaga, ekki eins og amerískur fótbolti, sem er miskrappur eftir því hvernig horft er á hann.  Ef hornhimnan er eins og sá ameríski þá lendir ljósgeislinn í mismunandi brennipunktum inni í auganu og myndin verður, ja … úr fókus!

Hefðbundin meðferð á sjónlagsgöllum

Gleraugu og snertilinsur eru góðar aðferðir til að bæta sjón þeirra sem eru með sjónlagsgalla.  Þessar aðferðir eru þó vissulega aðeins tímabundnar og ekki hugsaðar sem lækning, heldur sjónhjálpartæki, eða sjónhækjur.  Lasermeðferð er hugsuð sem aðferð til að lækna nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.  Þessi munur á meðferð setur LASIK-aðgerðina skiljanlega í annan flokk meðferðar.  Þessu má líkja við aðgerð til að lækna helti sem ekki er sambærilegt við gönguhækjur.

Gleraugu eru ekki hættulaus.  Þau geta brotnað og skorið augu.  Gleraugu hafa því valdið blindu.  Þau hafa líka varið augu, t.d. fyrir efnabruna og hlífðargleraugu eru nauðsynleg við vissa tegund vinnu þar sem hætta er á að fá efni í augu.  Á móti getur oft komið móða á gleraugu.  Þessi móða getur valdið slysum og án efa hefur móða á gleraugum valdið örkumlun og jafnvel dauða.

Snertilinsur eru heldur ekki hættulausar.  Þær geta greitt leið fyrir sýkingum í hornhimnu sem leiða til sjónskekkju, sjónskerðingar og jafnvel blindu.  Þetta er algengara þegar linsur eru ofnotaðar eða þegar reynt er að útbúa linsuvökva úr kranavatni.  Þrátt fyrir það hefur verið lýst sjúkratilfellum þar sem hornhimna hefur skemmst í kjölfar linsunotkunar þrátt fyrir að rétt hafi verið farið að við meðhöndlun þeirra.

LASIK-meðferð

Það eru til nokkrar tegundir laseraðgerða og linsuaðgerða í heiminum sem hannaðar eru sérstaklega til að minnka þörf fólks fyrir gleraugu og snertilinsur og í mörgum tilvikum losa það við hjálpartækin.  LASIK er þeirra langalgengust.  Í sumum tilvikum beitum við öðrum aðferðum, eins og PRK (photorefractive keratectomy), en LASIK hefur sannað gildi sitt, fyrst og fremst vegna þess að öryggið er mikið, árangurinn kemur fljótt í ljós og aðferðin hefur sannað gildi sitt síðastliðna tvo áratugi.  Í sumum tilvikum beitum við svokallaðri öldubrjótstækni (wavefront technology) ef hornhimna er með ójafna lögun.

Hvað kostar aðgerðin?

LASIK-aðgerð er sérstaklega ódýr hér á landi miðað við víðast hvar erlendis.  Sjá má verðskrá á vefnum www.augljos.is

Taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í aðgerð í einhverjum tilvikum?

Já, en mjög sjaldan.  Sjúkratryggingar taka þátt þegar um er að ræða:

  1. Sjónlagsgalla þar sem munur milli augna er svo mikill að veldur tvísýni (3 ljósbrotseiningar (D)) eða ljósbrot svo óreglulegt eða sjónskekkja svo mikil (meiri en 4 D) að ekki fæst gagnleg sjón með öðrum ráðum og/eða viðvarandi verkir eru augljóslega af þessum sökum.
  2. Sjúklinga sem vegna skertrar færni í efri útlimum geta ekki sett upp eða hagrætt gleraugum eins og nauðsynlegt er.
  3. Sjónlagsgalla af völdum sjúkdóma eða einkenni af völdum hornhimnusjúkdóma sem laseraðgerð gæti bætt.

Taka stéttarfélög þátt í aðgerð í einhverjum tilvikum?

Já, í mörgum tilvikum taka stéttarfélög þátt í aðgerð.  Við hvetjum fólk til að kanna þau mál hjá sínu félagi.

Hverjum hentar aðgerð?

  • Þeim sem eru 18 ára og eldri
  • með stöðugt sjónlag (sama gleraugnarecept í a.m.k. 2 ár)
  • þar sem ekki er saga um hornhimnusjúkdóma, eins og keiluglæru (keratoconus), herpessjúkdóm (sama veira og veldur frunsum) í augum
  • ekki saga um bandvefssjúkdóma, s.s. rauða úlfa (systemic lupus erythematosus, SLE) scleroderma, dermatomyositis og iktsýki (rheumatoid arthritis)
  • Ekki má vera saga um alvarlega sykursýki, lithimnubólgur eða alvarlega þurr augu.
  • Fólk sem er að taka hjartalyfið Cordarone eða húðlyfið Roaccutane ætti ekki að gangast undir aðgerðina.
  • Jafnframt er ekki mælt með aðgerð hjá barnshafandi konum eða í 2 mánuði eftir barnsburð ef kona gefur barni brjóst.

Hvað er hornhimna?

Við framkvæmum aðgerðina á hornhimnunni.  Hornhimnan er kúpull framan á auganu, sem líkist glerkúplinum á Perlunni í Öskjuhlíð.  Þar vinnur laserinn.  Hornhimnan er fremra linsukerfið í auganu, en þau eru tvö, hornhimnan og svo aftara linsukerfið, augasteinninn.  Í LASIK-aðgerð er EKKI farið inn í augað, aðeins unnið utan á því, ólíkt t.d. augasteinsaðgerðum, þar sem skipt er um augastein, þ.e. aftara linsukerfið.

Forskoðun fyrir laseraðgerð

Snertilinsur geta mótað hornhimnuyfirborðið og því mælum við með því að vera ekki með snertilinsur í a.m.k. 1 viku fyrir aðgerð.  Ef þú ert með harðar linsur mælum við með 2 vikna linsufríi.  Rannsóknir hafa sýnt að tíðni enduraðgerða er hærri hjá þeim sem eru með linsur í rétt fyrir forskoðun, þar sem niðurstöður gefa hugsanlega ekki rétta mynd af ástandi augnanna.

Við gerum eftirfarandi rannsóknir fyrir aðgerð og er þetta án efa nákvæmasta augnrannsókn sem þú hefur farið í.

Spurt er út í heilsufarssögu, hvaða lyf þú tekur og hversu stöðug sjónin hefur verið á undanförnum árum.  Jafnframt er spurt út í sýkingar á augum og hvort þú hafir lent í augnslysi.

Við framkvæmum nákvæma sjónmælingu nokkrum sinnum, með þínum eigin gleraugum, bestu gleraugum og síðan er sjónmæling eftir að sjáöldur þín eru útvíkkuð með dropum.

Við mælum augnþrýsting og stærð sjáaldra.

Yfirborð hornhimnu er skoðað og mælt með sérstöku tæki, sem er hægt að tengja á sérstakan hátt við lasertækið.  Þykkt hornhimnunnar er einnig mæld.

Augnlæknir skoðar augun nákvæmlega með svokallaðri raufarsmásjá, allt frá hornhimnu aftur í augnbotn og sjóntaug.

Lestur eftir forskoðun

Droparnir sem við gefum við forskoðunina minnka hæfileika þína til að lesa.  Við segjum í gamni að við séum að gera augun þín „sjötug“ í 2 klukkutíma eftir skoðunina.  En það þýðir líka að þú átt erfitt með lestur í 2-3 klukkutíma eftir forskoðunina, jafnvel lengur ef þú ert með dökkbrún augu.  Flestir geta keyrt eftir augnskoðun en það kann þó að vera að það sé ekki ráðlegt.

Ákvörðunin

Við ræðum vel útkomu skoðunarinnar.  Við ræðum hvort augun séu heilbrigð og þá hvort þau henti til laseraðgerðar.  Miklu máli skiptir að fólk átti sig á að hér er um aðgerð að ræða og hún er ekki án áhættu, þótt áhættan sé lítil.  Við leggjum líka mikið upp úr því að fólk átti sig á að þrátt fyrir að flestir losni algjörlega við gleraugu er helsti tilgangur aðgerðarinnar sá að gera fólk minna háð gleraugum.

Við hverju má búast eftir aðgerð?

Í flestum tilvikum verður þú algjörlega óháð/ur gleraugum.  Í einstaka tilvikum þarf þó fólk veik gleraugu til að sjá fullkomlega skýrt, t.d. við akstur eða við að horfa á sjónvarp.  Mjög mikilvægt er að muna að sé farið í hefðbundna lasermeðferð á augum þurfa flestir sem komnir eru yfir 45 ára aldur að nota lesgleraugu af einhverju tagi, rétt eins og jafnaldrar þeirra.  Þetta er vegna þess að lesfjarsýni, sem bankar upp á hjá öllum á þessum aldri er vegna hörðnunar í augasteini, sem tilheyrir aftara linsukerfi augans, en eins og áður hefur komið fram er lasermeðferð beint á fremra linsukerfið, þ.e. hornhimnu en ekki það aftara eða augasteininn.  Presbymaxmeðferð er sérstök lasermeðferð sem miðar að því að losa fólk yfir 45 ára aldri nánast alveg við bæði fjar- og lesgleraugu.

Lesfjarsýni

Það er svo gaman að tala um lesfjarsýni að hún þarf eiginlega sérkafla.  Það er mesta synd að lesfjarsýni sé ruglað saman við raunverulega fjarsýni, því þessi fyrirbrigði eru svo ólík, það fyrrnefnda vegna hörðnunar á augasteini, aftara linsukerfi augans, og hið síðarnefnda vegna þess að augað er of stutt, þ.e. afbrigðilegri lögun augnkúlunnar.  Þar sem laseraðgerðin kemur ekki í veg fyrir lesfjarsýni þurfum við að taka það sérstaklega fram að þeir sem komnir eru yfir 45 ára aldur þurfi að búa sig undir að nota lesgleraugu.  Þar sem þetta er oft misskilið þá ætlum við að segja þetta aftur og feitletra líka:

Þeir sem farið hafa í laseraðgerð og komnir eru yfir 45 ára aldur þurfa að búa sig undir að nota lesgleraugu eins og jafnaldrar þeirra  !!

Þetta er sérstaklega mikilvægt að átta sig á fyrir þá sem eru nærsýnir, eru orðnir eldri en 45 ára og geta lesið án lesgleraugna.  Þeir munu þurfa að nota lesgleraugu eftir aðgerð eins og aðrir sem komnir eru yfir 45 ára aldur.  Oftast getur fólk notað ódýr lesgleraugu, líkt og fást í mörgum verslunum.

Nú þegar við höfum komið þessu rækilega á framfæri getum við kynnt til sögunnar aðferðir til að minnka það hversu háður þú verður lesgleraugum eftir 45 ára aldur.  Tvær aðferðir eru til:

1. Skiptisjónaraðferðin (monovision).  Þessi aðferð hefur verið notuð í fjölda ára.  Með henni er annað augað (víkjandi augað) haft svolítið nærsýnt, en hitt augað (ríkjandi augað) er lagfært að fullu.  Með þessu getur viðkomandi notað ríkjandi augað til að horfa á hluti langt í burtu en lesið með því. Viðkomandi getur í langflestum tilvikum lesið stærra letur, s.s. á matseðlum og á vörum í matvöruverslun.  Ef lesa þarf smátt letur þarf þó að nota lesgleraugu.

2. Presbymax aðgerð.  Með þessari aðgerð eru bæði augu meðhöndluð á þann hátt að viðkomandi getur bæði séð langt í burtu og nálægt sér, án gleraugna.  Í þessari aðgerð eru sérstakir eiginleikar sem lasertækið býður upp á notaðir þannig að ljósbrotshæfni hornhimnu verður mismunandi eftir svæðum.  Á þennan hátt má ná fram lessjón að mestu án gleraugna, jafnvel hjá þeim sem eru komnir yfir fimmtugt.   Í undantekningartilvikum, s.s. við lestur á mjög smáu letri eða í lélegri birtu getur viðkomandi þurft á vægum lesgleraugum að halda.  Þetta er árangursríkari meðferð en skiptisjónarmeðferð og gerir viðkomandi nánast óháðan gleraugum í flestum tilvikum.  Á hinn bóginn tekur svolítið lengri tíma að þjálfa augun til að nýta sér þetta nýja fyrirkomulag eftir Presbymax aðgerð, það tekur nokkuð lengri tíma fyrir fjarlægðarsjón að koma og hún er nokkuð dýrari en hefðbundin LASIK-meðferð.  Ástæða er hér líka til að endurtaka að Presbymax aðgerð útilokar ekki að í vissum tilvikum þurfi að nota gleraugu til að lesa smátt letur og horfa á hluti mjög nálægt sér.

Takmörk aðgerðar

Eins og áður hefur komið fram eru augun okkar flókin líffæri sem byggð er úr mörgum innri kerfum og eru þess utan í stöðugri endurnýjun.  Eins og áður hefur verið nefnt erum við með tvö linsukerfi í auganu, fremra linsukerfi og aftara.  Fremra linsukerfið samanstendur af hornhimnunni en það aftara af augasteininum.  LASIK aðgerð er aðgerð sem eingöngu er framkvæmd á hornhimnu, en ekki augasteini.  Þar sem breytingar geta orðið á augasteini með aldri, jafnvel snemma á ævinni, geta slíkar breytingar valdið fjarsýni, nærsýni og jafnvel sjónskekkju.  Því er hugsanlegt að eftir LASIK-aðgerð geti myndast fjarsýni, nærsýni og jafnvel sjónskekkja vegna breytinga í  augasteini.  Stundum er ranglega talið að aðgerð hafi misheppnast, eða að fjarsýnin/nærsýnin/sjónskekkjan hafi „komið til baka eftir aðgerðina“, en langoftast er þá um að ræða breytingar í þessu aftara linsukerfi augans, augasteininum sjálfum.

1. Ský á augasteini (cataracts)

Ský á augasteini er eins og móða á milli glerja i augasteininum.  Skýmyndun byrjar oftast með breytingum á sjónlagi eins og fyrr hefur verið greint frá en síðan verður tær augasteinninn grár og ógegnsær.  Þetta er skiljanlega ekki hægt að laga með laseraðgerð.

2. Letiauga (amblyopia)

Letiauga er ástand sem myndast snemma í barnæsku og er yfirleitt ekki hægt að lækna það eftir 6-8 ára aldur.  Margir kannast við að hafa séð eða jafnvel upplifað sjálfir svokallaða leppmeðferð, þar sem barnið er með lepp fyrir öðru auganu til að þjálfa hitt.  Þessi meðferð er til að hindra að letiauga myndast og mjög mikilvægt að þetta heppnist áður en sjónbrautir heilans hafa þroskast að fullu, en það gerist einmitt um 6-8 ára aldurinn.  Heppnist ekki að laga letiauga fyrir 6-8 ára aldur er sjón skert það sem eftir er ævinnar.  Um 10% einstaklinga eru með letiauga.  Sjónskerðingu af völdum letiauga er ekki hægt að laga með gleraugum.  Þrátt fyrir að einstaklingur með letiauga megi oft fara í LASIK-aðgerð er mikilvægt að átta sig á því að laseraðgerð bætir ekki sjón augans nema með því að gera það minna háð gleraugum.  Með öðrum orðum, sjón eftir LASIK-aðgerð verður svipuð því sem hún verður með bestu glerjum fyrir aðgerð.

3. Skjálgi eða rangeygni (strabismus)

Þegar annað augað vísar inn á við eða út á við er talað um að viðkomandi sé rangeygur.  LASIK-aðgerð hefur ekki áhrif á rangeygni en metið er í forskoðun hvort viðkomandi sé heppilegur til aðgerðar.

 

Helstu áhættuþættir og mögulegir fylgikvillar

Engar skurðaðgerðir eru án áhættu líkt og raunar á við með allt í lífinu.  Áhætta af völdum LASIK-aðgerðar eða annarra sjónlagsaðgerða með laser er mjög lítil en þó til staðar.  Það er mjög mikilvægt að muna.  Þú þarft að gera það vel upp við þig hvort LASIK-aðgerð sé eitthvað sem þú treystir þér til að gangast undir og bera saman við þær úrlausnir sem til eru, þ.e. gleraugu eða snertilinsur.  Þó ber að hafa í huga að gleraugu og snertilinsur eru ekki án áhættu sem slík, þótt ekki sé ástæða til að fara yfir það hér.  Enginn valkostur er fyllilega án áhættu.

1. Þurr augu – allir finna fyrir þurrum augum eftir aðgerð og því er mikilvægt að nota gervitár í a.m.k.  1 mánuð að lokinni aðgerð og flestir þurfa eitthvað á gervitárum að halda í nokkra mánuði og jafnvel lengur.

2. Bólga – bólguviðbrögð eru eðlileg eftir allar skurðaðgerðir.  Passa þarf vel að skilja á milli bólgu og sýkingar, þetta eru tveir ólíkir hlutir.  Ef bólga verður mikil getur það breytt flipanum eftir LASIK-aðgerð og þar með sjón, en oftast er þetta tímabundið.  Stundum þarf að gefa bólgueyðandi augndropa á meðan þetta er að ganga yfir, sem yfirleitt er aðeins í nokkra daga en í undantekningartilfellum getur það tekið lengri tíma.

3. Ófullkominn flipi eða frír flipi.  Mjög sjaldan gerist það að flipi verði of lítill, óreglulegur að lögun eða án hjarar og laus frá.  Þetta leiðir stundum til þess að fresta þarf aðgerð.  Oftast er hægt að framkvæma aðra aðgerð að nokkrum mánuðum liðnum og í fæstum tilvikum hefur þetta áhrif á sjón.  Það getur þó gerst í einstaka tilvikum.

4. Þekjulos á flipa.  Einstaka sinnum getur ysta lag flipans hliðrast til eða rofnað.  Sem betur fer grær þekja mjög hratt á flipa, en þetta getur valdið töfum á því að fullkomin sjón komi á augað.  Oftast er það einungis nokkrir dagar en getur í undantekningartilvikum orðið lengri tími.  Þetta vandamál er nánast óþekkt með tilkomu Amadeus II flipavélarinnar.

5. Skipta yfir í aðra tegund laseraðgerðar.  Í undantekningartilfellum þarf að skipta yfir í PRK-aðgerð, sem er sambærileg við LASIK-aðgerð, nema að í fyrrgreindu aðgerðinni er ekki útbúinn flipi, heldur er lasernum beint á augað án flipagerðar.  Þetta er upprunalega lasermeðferðin og árangur er sá sami, þrátt fyrir að sjón komi nokkru seinna og fólk finni ögn meira fyrir í augunum að lokinni aðgerð.  Þau tilvik þar sem skipta þarf um aðgerðartegund eru aðstæður þar sem erfitt er að koma fyrir flipavél, s.s. lítil augnumgjörð, sérlega djúpstæð augu og los á þekju sem kemur fram í LASIK-aðgerðinni.

6. Flipahrukkur.  Flipinn á að vera eins og straujaður á auganu, sléttur og fínn.  Þá næst góð sjón á augað.  Rík áhersla er lögð á að þú nuddir ekki augun að lokinni aðgerð.  Ekki nudda augun!!  Þú færð með þér gleraugu til að sofa með í 4 nætur að lokinni aðgerð til að tryggja þetta.  Jafnframt þarftu að forðast að kreista aftur augun í heilan sólarhring eftir aðgerðina.  Þrátt fyrir þetta geta hrukkur myndast í flipann eftir aðgerð og mikilvægt er að bregðast við því fljótt.  Ef grunur leikur á að flipinn hafi færst til eftir aðgerð er mikilvægt að bregðast skjótt við og hringja í neyðarnúmerið sem kemur fram hér aftast í þessum bæklingi.  Helstu einkenni þessa eru verkir í auga og erfiðleikar við að opna augað.  Sé brugðist skjótt við er í flestum tilvikum auðvelt að laga flipahrukkur án þess að það hafi áhrif á sjón til langframa.

7. Þekjuvöxtur undir flipa.  Eftir LASIK festist flipinn á undirlag sitt og ekki þarf að sauma eða líma hann fastan.  Hornhimnuþekjan vex síðan yfir samskeytin á nokkrum klukkustundum og lokar skurðlínunni.  Einstaka sinnum geta þekjufrumur vaxið undir flipann og í örfáum tilvikum haft áhrif á sjón ef ekki er gripið fljótt inn í.  Örsjaldan þarf þó að lyfta flipa upp á ný en þá er oftast auðvelt að taka burt þekjufrumurnar og fá sjón góða á ný.

8. Sýking.  Þetta er gríðarlega sjaldgæfur fylgikvilli eftir LASIK og hefur ekki verið lýst hér á landi svo vitað sé.  Komi sýking hins vegar upp er í langflestum tilvikum auðvelt að lækna hana með sýklalyfjadropum.  Bera má saman við hættu á sýkingum af völdum snertilinsa, sem er 1 af hverjum 100 yfir 20 ára tímabil linsunotkunar.  Talið er  að hætta á sýkingum af völdum snertilinsa sé því 500x meiri en eftir LASIK-aðgerð.

9. Ójafnt hornhimnuyfirborð.  Í langflestum tilvikum heppnast meðferðin mjög vel og hornhimnubeðurinn, þ.e. svæðið sem er meðhöndlað, er afar slétt.  Í undantekningartilfellum geta myndast örlitlar misfellur á beðnum sem valda því að sjón getur versnað um 1-2 línur á sjónmælingaspjaldinu, fólk sér tvöfalt eða línur koma út frá ljósum.  Þetta gerist í u.þ.b. 1 af hverjum 500 aðgerðum og er yfirleitt hægt að laga slíkt með enduraðgerð, sem byggir þá á sérlega þróaðri meðferð með Schwind lasertækni.  Nýjasta tækni, s.s. Schwind lasertæknin hafa aukið öryggi þessara aðgerða mjög og því eru afar fáir sem þurfa á slíku að halda.

10. Yfirlagfæring, undirlagfæring, falinn sjónlagsgalli.  Í flestum tilvikum verður þú minna háður gleraugum og snertilinsum að lokinni aðgerð.  Lasergeislinn er mjög nákvæmur og það sama á við um sjónmælingu sem framkvæmd er fyrir aðgerð.  Við erum þó að meðhöndla lifandi vef og stundum er gróandi augna eftir aðgerð óvenjulegur, líkt og við þekkjum frá gróanda sára frá einum einstaklingi til annars.  Þá getur orðið eftir smánærsýni, fjarsýni eða sjónskekkja.  Í einstökum tilvikum getur sjónlagsgalli verið falinn, í langflestum tilvikum er þá um fjarsýni að ræða hjá yngri einstaklingum sem ekki er að fullu hægt að kalla fram með sjáaldursútvíkkandi dropum fyrir aðgerð.  Í þessum tilvikum þarf að framkvæma aðgerðina í tveimur skrefum, eins og við köllum það, framkvæma viðbótaraðgerð.  Þetta er algengara hjá þeim sem eru með mikinn sjónlagsgalla og hjá þeim sem eru fjarsýnir.    Tíðni viðbótarmeðferðar hefur lækkað á undanförnum árum og er hún allt frá 1%-8% aðgerða.

11. Ljósfælni og glýja.  Einkennin eru ekki óalgengt að lokinni aðgerð og geta varað í nokkrar vikur.  Þetta er stundum kölluð vaselínsjón og orsakast af bjúgmyndun, eða vökvasöfnun í flipanum sem minnkar og hverfur með tímanum.  Einstaka sinnum kemur fyrir að þetta sé viðvarandi í nokkra mánuði eftir aðgerð og í örfáum tilvikum lengur.

12. Baugar í kringum ljós.  Þegar dimmir getur fólk tekið eftir baugum í kringum ljós.  Þeir þættir sem áhrif geta haft á þetta eru bjúgur í flipa og sjáaldursstækkun sem nær út fyrir svæðið sem meðhöndlað er.  Þetta er oftast ekki til baga en getur verið meira áberandi í rökkri og hjá þeim sem eru með stór sjáöldur.  Í undantekningartilfellum þarf að gefa sjáaldursminnkandi augndropa sem dregur úr baugum og ljósgeislum út úr ljósum.  Stundum þarf að framkvæma viðbótarmeðferð með laser.  Í einstaka tilvikum getur þetta verið viðvarandi.

13.  Hliðrun á meðferðarsvæði.  Í örfáum tilvikum getur orðið hliðrun á meðferðarsvæði, þ.e. svæðið sem er meðhöndlað er ekki miðjað rétt.  Stórkostleg fækkun hefur orðið á þessum tilvikum í kjölfar öruggari lasertækja með betri miðjunartækni ogfylgigeisla (tracking).  Óhætt er að segja að Schwind excimer lasertækið sé í fremstu röð hvað þetta varðar með sérstaka 5 vídda fylgigeisla, þar sem geislinn fylgir augnhreyfingum og höfuðhreyfingum með 1GHz tíðni.   Verði hliðrun á meðferðarsvæði eins og hér hefur verið lýst má langoftast beita einstaklingsbundinni lasermeðferð (customized laser).

14. Sig á hornhimnu.  Sumar hornhimnur geta verið veikari en aðrar.  Ávallt er leitast við að finna hvort svo sé í forskoðun fyrir aðgerð.  Í langflestum tilvikum er hægt að greina slíkar hornhimnur og í öllum tilvikum er nægilegur vefur skilinn eftir í aðgerð til að slíkt eigi ekki að eiga sér stað.  Í einstaka tilvikum getur það þó gerst að hornhimna taki að síga og jafnvel þynnast.  Hætta á slíku er talin vera 1 á móti 5000.  Þess má geta að hornhimnusig er þekkt án þess að aðgerð hafi verið framkvæmd, þannig að í sumum tilvikum gæti hornhimnusig hafa átt sér stað án tilkomu aðgerðar.  Nú á dögum má meðhöndla slíkt hornhimnusig með krosstengslameðferð (corneal crosslinking), sem er sambland af B2 vítamíngjöf í dropaformi og UV-geislun á hornhimnu.  Því er afar óalgengt að þetta ástand leiði til þess að skipta þurfi um hornhimnu, sem einstöku sinnum þurfti hér áður fyrr.

15. Ójafnvægi á milli augna.  Þegar framkvæmd er svokölluð skiptisjónarmeðferð, þ.e. skilin eftir væg nærsýni á víkjandi auga, tekur yfirleitt ekki nema 1-2 vikur að venjast nýja fyrirkomulaginu.  Fyrir getur þó komið að viðkomandi venjist því illa eða ekki og því er í einstaka tilvikum nauðsynlegt að meðhöndla víkjandi augað að fullu.  Slík aðgerð er ávallt innifalin í upphaflegum kostnaði aðgerðarinnar sé þetta framkvæmt innan 3 ára frá aðgerð.

16. Annað.  Alvarlegri fylgikvillar en þeir sem á undan eru nefndir geta komið til.  Blindu hefur enn ekki verið lýst vegna LASIK, en margoft vegna snertilinsa eða brotinna gleraugna.

Gangur LASIK-aðgerðar

Mundu að nota ekki mjúkar augnlinsur í a.m.k. viku fyrir aðgerð.  Ef þú notar harðar linsur þarftu að vera hálfan mánuð án linsanna.  Passaðu þig á að nota ekki augnfarða fyrir aðgerð og raunar er best að þvo hvarmana vel með heitu vatni kvöldið fyrir aðgerð.  Leifar af augnfarða geta sest undir flipa og gert aðgerð erfiðari.  Við mælum ekki með því að neyta víns í sólarhring fyrir aðgerð þar sem alkóhól þurrkar upp vefi, þar á meðal hornhimnu.  Jafnframt mælum við með góðri hvíld fyrir aðgerð og að fólk komi ekki beint af næturvakt í aðgerðina.

Fyrir aðgerðina er gengið frá greiðslum og þú skrifar undir upplýst samþykki.  Til hægindaauka er best að panta þá þegar tíma í skoðunina daginn eftir aðgerð.

Fyrir aðgerðina er boðið upp á róandi töflu til að minnka kvíða svo að þú slakir vel á fyrir aðgerðina.  Það er ekki skylda að taka töfluna en akstur að lokinni aðgerð er ekki leyfður á aðgerðardegi, hvort sem þú kýst að taka töfluna eða ekki.  Láttu okkur vita ef þú hefur eitthvað ofnæmi fyrir lyfjum.  Ekki þarf að vera fastandi fyrir aðgerð og lasertækið hefur engin áhrif á hjartagangráða.  Við mælum með fremur hlýjum fatnaði en þó ekki um of.

Í byrjun aðgerðarinnar eru gefnir staðdeyfandi dropar og það tekur hornhimnurnar aðeins 15 sekúndur að dofna algjörlega.  Þú finnur engan sársauka í aðgerðinni.  Ef þú ferð í aðgerð á báðum augum er hægra augað yfirleitt meðhöndlað fyrst.

Við byrjum á því að opna augað varlega með augnsperru svo að þú getir ekki lokað auganu á meðan á aðgerð stendur.  Lítið miðunarljós í tækinu hjálpar til að halda auganu stöðugu en lasergjafinn fylgir auganu eftir þar sem augað er alltaf á stöðugri hreyfingu þrátt fyrir að þér finnist það vera stöðugt.  Búinn er til rúmlega 0,1 mm hlífðarflipi fyrst með sérstakri flipavél.  Því næst er lasermeðferð beitt.  Lasermeðferðin sjálf tekur mjög skamman tíma, yfirleitt innan við mínútu  Lyktin sem kemur á meðan aðgerðinni stendur minnir á sviðalykt þrátt fyrir að lasergeislinn sé kaldur og enginn bruni eigi sér stað.  Að lokinni aðgerð er flipinn lagður á aftur, augnsperran fjarlægð og aðgerðinni er þar með lokið.  Aðgerð á báðum augum tekur oftast í kringum 10 mínútur.

Örstutt um lasertækið

Schwind Amaris lasertækið minnkar aðgerðartíma að jafnaði um helming miðað við eldri lasertæki, fullkominn fimmvíddar (5D) fylgigeislabúnaður (laser tracking mechanism) er á lasernum með 1GHz hraða á fylgigeislanum og sérstök dreifing er á geislanum til að minnka hitamyndun í vefnum.  Að sjálfsögðu er möguleiki á „iris guided personalized treatment“, sem kalla má persónubundna lithimnumiðaða meðferð, en hún er einmitt mjög háð hinum fullkomna 5víddar (5D) fylgilaserbúnaði.

Þessu til viðbótar býður Augljós upp á glænýjar aðgerðir fyrir þá sem vilja geta minnkað mjög lesgleraugnanotkun.  Hingað til hafa möguleikar lasertækni takmarkast við að gera annað augað nærsýnt upp á -0.75 díoptríur, svokölluð skiptisjónarmeðferð (monovision).  Það þýddi að það auga sá ekki eins vel frá sér en sá ögn betur nær sér en hitt augað.  Með nýjustu lasertækni hefur verið hægt að útbúa sérstakan laserprófíl eða lögun á hornhimnu, sem veldur því að sama augað sér bæði vel frá sér og nálægt sér.  Þessi meðferð kallast Presbymax og býður Augljós upp á slíkar laseraðgerðir fyrst laserfyrirtækja hér á landi.  Presbymax er fyrst og fremst ætlað þeim sem eru komnir yfir 45 ára aldur og vilja geta nýtt sér hæfileikann til að sjá vel bæði frá sér og nálægt sér með sem minnstri aðstoð gleraugna.  Samkvæmt rannsóknum eru þeir sem gangast undir Presbymax meðferð með Schwind Amaris mjög lítið háðir lesgleraugum að lokinni aðgerð.

Að lokinni aðgerð

Að lokinni aðgerð fara deyfiáhrifin fljótt og þú finnur eins og það séu gamlar linsur í augunum.  Það er ekki eðlilegt að finna fyrir verk eða eiga erfitt með að opna augað og þarftu strax að hringja í neyðarlínuna okkar ef slíkt gerist.

Þrjár tegundir af augndropum eru notaðar, Maxidex (bólgueyðandi lyf), Oftaquix (sýklalyf) og gervitáradropar. Maxidex og Oftaquix skaltu nota fjórum sinnum á dag og hafðu a.m.k. 2 mínútur á milli dropanna. Gervitáradropana skaltu nota á klukkutíma fresti fyrstu 2-3 dagana, það flýtir fyrir batanum.  Þú setur á þig sérstök gleraugu sem þú skalt hafa á þér fyrsta klukkutímann.  Þá máttu taka þau af þér og setja þau á þig ef þú leggur þig eða þegar þú ferð að sofa.  Hugmyndin er sú að maður geti nuddað augun í svefni og því nauðsynlegt að hlífa þeim í a.m.k. fjóra sólarhringa.

Daginn eftir aðgerð þarft þú að taka því rólega.  Þarnæsta dag geta flestir farið að hlaupa og í ræktina.  Bíða þarf í viku með að setja maskara á augun og tvær vikur með að fara í sund og stunda kontaktíþróttir.

Varðandi vinnu þá mælum við með því að einstaklingar sem eru í rykfríu umhverfi bíði þar til þarnæsta dag eftir aðgerð með að fara til vinnu.  Sé ryk til staðar á vinnustað og einhver hætta á að fá ryk, efni eða vökva í augu getur tekið allt upp undir viku þar til einstaklingur getur farið til vinnu.

Mikilvægasta skoðun að lokinni aðgerð er daginn eftir aðgerðina.  Síðan kíkjum við á þig tveimur vikum eftir aðgerð og sex mánuðum að lokinni aðgerð.  Stundum viljum við líta á þig oftar og einstöku sinnum þurfum við að setja litla silikontappa í táragangaop í augnlokum til að auka táramagn í augunum, ef augun eru mjög þurr.  Allar skoðanir eftir aðgerð eru innifaldar í verði aðgerðar í allt að ár að lokinni aðgerð.  Við erum þar að auki með þriggja ára ábyrgð á aðgerð okkar og framkvæmum enduraðgerð innan þess tíma sé þess þörf án viðbótargjalds.

Við leggjum ríka áherslu á að þú hafir samband við okkur ef eitthvað kemur upp á, annað hvort í gegnum neyðarlínuna eða í gegnum tölvupóst, johannes@augljos.is

Próf

Hér að lokum er stutt próf til að tryggja að þú hafir góðan skilning á því hvað LASIK-aðgerð getur gert fyrir þig og hvað hún getur ekki gert.  Mikilvægt er að þú hafir lokið þessu prófi áður en þú skrifar undir upplýst samþykki. Settu hring í kringum „Satt“ eða „Ósatt“ eftir því sem við á:

1.   Satt        Ósatt     LASIK-aðgerð mun breyta lögun hornhimnunnar varanlega

2.  Satt        Ósatt     Ekki er 100% öruggt að tilætlaður árangur náist.

3.   Satt        Ósatt     LASIK-aðgerð er eina leiðin til að bæta sjón mína

4.  Satt        Ósatt     Ég kann að upplifa sjóntruflanir eins og móðu, bauga í kringum ljós  og geisla út frá ljósum sem gætu í undantekningartilvikum varað áfram.

5.   Satt        Ósatt     Skoðanir eftir aðgerð eru mikilvægar.

6.   Satt        Ósatt     Það er hugsanlegt að ég finni fyrir vægum óþægindum í 4-6 klst eftir aðgerð.

7.   Satt        Ósatt     Að lokinni LASIK-aðgerð þarf ég ekki á neinum lesgleraugum að  halda eftir fertugt.

8.   Satt        Ósatt     Einstaka sinnum getur komið upp vandamál við gerð flipa í aðgerð

Berðu saman útkomu þína við rétt svör hér fyrir neðan.  Ef einhverjar spurningar vakna, endilega leyfið okkur að heyra og við leysum úr öllum vafamálum.

Svör: 1. Satt   2. Satt   3. Ósatt   4. Satt   5. Satt   6. Satt   7. Ósatt   8. Satt

Loforð

Við í Augljósi leggjum alla okkar þekkingu og þjónustuvilja í þína þágu og vonum að þú upplifir aðgerðina sem eitt af því mikilvægasta og besta sem komið hefur fyrir þig á ævinni.  Þannig á LASIK-aðgerð að vera.

Og að lokum:

… skal bent á vefsíðuna okkar sem er sneisafull af allskonar fróðleik um LASIK-aðgerðir og annað sem að augunum snýr.  Þér er velkomið að hafa samband við okkur á tölvupóstföngin sem finna má á vefsíðunni.  Tölvupóstfang Jóhannesar Kára augnlæknis er: johannes@augljos.is

Neyðarnúmer Jóhannesar Kára augnlæknis er 898 3288.  Náist ekki í þetta númer er ávallt vakt á augndeild Landspítala í síma 543 1000.

Trúðu þínum eigin augum!

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir

María Aldís Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur