22. Mar

Mikið er lagt upp úr tannheilbrigði og gildi þess að fara reglulega til tannlæknis.   Á vef  Tannlæknafélags Íslands er mælt með skoðun heilbrigðra tanna að minnsta kosti einu sinni á ári og tvisvar á ári ef um tannheilsuvanda er að ræða.  Engar slíkar reglur hafa verið settar fram hér á landi um augun.  Áherslumuninn má líka sjá á vefnum, þar sem íslenskar greinar um augnheilsu, augnheilbrigði og augnheilsugæslu eru miklu færri en sambærilegar greinar um tennur, og raunar fjalla margar þeirra um það hversu oft á að fara með hunda í augnskoðun.  Alþjóðlegar reglur mæla með eftirfarandi tíðni á augnskoðunum:

Undir 40 ára aldri: Á 5-10 ára fresti

40-54: 2-4 ára fresti

55-64: 1-3 ára fresti

65 ára og eldri: 1-2 ára fresti

Staðreyndin er sú að nú er hægt að gera svo miklu meira til að hindra sjónskerðingu og blindu en áður var.  Þótt augnsjúkdómarnir séu margir má segja að stóru augnsjúkdómarnir sem allir ættu að þekkja séu þrír. 

 

Sá fyrsti er aldursbundin augnbotnahrörnun, sem margir þekkja sem kölkun í augnbotnum.  Í þessum sjúkdómi skemmist hluti sjónhimnunnar þar sem skarpa sjónin er.  Sjónhimnan er himnan sem þekur augað að innan, einskonar veggfóður úr taugavef.

Aldursbundin augnbotnahrörnun (kölkun í augnbotnum)

Annar er gláka, þar sem þrýstingur inni í auganu er oft of hár, skemmir sjóntaugina og þar með sjón. 

Gláka. Hár augnþrýstingur (bláu örvarnar) inni í auganu getur skemmt sjóntaug (optic nerve).

Sá þriðji er ský á augasteini, sem er eins og móða á milli glerja í augasteininum, glæru linsunni sem liggur framan til í auganu.  Þessa sjúkdóma er hægt að greina snemma og oft hindra sjónskerðingu af völdum þeirra.

Ský á augasteini. Í sjáaldri augans hægra megin má sjá gráma sem stundum má sjá hjá þeim sem eru með ský á augasteini.