Flestir þekkja einhvern sem farið hefur í laseraðgerð eða laseraðgerðir á augum.  Milljónir manna hafa losnað við gleraugu og snertilinsur eða orðið minna háðir þessum hjálpartækjum. Langalgengasta tegund laseraðgerðar er LASIK-aðgerðin. Fyrsta LASIK-aðgerðin markaði byltingu hér á landi þegar hún var framkvæmd árið 2000, en það var heilum 10 árum eftir að læknarnir Pallikaris og Buratto framkvæmdu fyrstu aðgerðirnar.

Mynd 1. Ioannis Pallikaris – Grikklandi

Mynd 2. Lucio Buratto, Ítalíu

 

Nú er LASIK ein algengasta aðgerð sem framkvæmd er hér á landi – hún hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem örugg aðferð til að verða minna háður eða óháður gleraugum.  Tilkoma Augljós laser augnlæknastöðvar markar enn ein tímamót í laserlækningum hér á landi, þar sem ný tækni, reynsla og þekking koma saman.  Jóhannes augnlæknir framkvæmdi sína fyrstu laseraugnaðgerð árið 2000 og hefur síðan framkvæmt yfir 10.000 slíkar aðgerðir.  Hann er lærður hornhimnusérfræðingur frá einum virtasta augnspítala í Bandaríkjunum, Duke Eye Center í Norður-Karólínu og lærði þá jafnframt að framkvæma laseraugnaðgerðir undir leiðsögn hornhimnusérfræðinga auk þess að framkvæma tugi hornhimnuskipta og meðhöndla erfið hornhimnuvandamál. 

 

Mynd 3. Duke Eye Center, Durham, Norður-Karólínu hefur í marggang verið valin ein af 10 bestu augndeildum Bandaríkjanna.

Tækin sem notuð eru til að framkvæma þessar aðgerðir eru að sjálfsögðu afar mikilvæg þar sem tæknin tekur stöðugum framförum.  Lasertækið okkar er eitt það fullkomnasta í heimi og engu til sparað.  Schwind er leiðandi í lasertækninni, útbýr einstaklega nákvæman prófíl á hornhimnuna og er lasergeislinn úr þessu tæki útbúið afar fullkomnum fylgieiginleikum (1MHz), sem gera það að verkum að laserinn fylgir auganu hvert sem það snýr.  Þetta eykur mjög á nákvæmni meðferðarinnar.  Jafnframt er hraði meðferðarinnar tvöfalt meiri en hefðbundinna lasertækja og tekur meðferðin t.d. um helmingi styttri tíma en hingað til hefur tíðkast. 

 

 

LASIK – gangur aðgerðar

Við spyrjum Jóhannes um hvað LASIK-aðgerð snúist.

Mynd 4. Hér er teiknuð mynd af hornhimnu með flipa sem búið er að leggja til hliðar. Flipinn á þessari mynd er öllu þykkari en raunverulega gerist í aðgerð.

 

“Það getur verið snúið í byrjun að átta sig á eðli aðgerðarinnar, “ segir Jóhannes.    “Meginatriðið er að átta sig á byggingu augans.  Í aðgerðinni búum við til flipa á hornhimnuna, en gott er að líta á hornhimnuna sem einskonar glæra hvelfingu framan á auganu.  Í aðgerðinni snýst allt um hornhimnuna.  Við förum aldrei inn í augað sjálft, heldur vinnum bara á glugganum, þ.e. hornhimnunni.“ 

Hann útskýrir frekar: „Við útbúum flipa, eða skífu, á hornhimnuna með sérstakri flipavél.   Þessi flipi er fastur á hjör, þ.e. við tökum ekki skífuna af hornhimnunni, heldur er henni ætlað að hlífa aðgerðarsvæðinu.  Við útbúum sem sagt flipann, leggjum hann til hliðar og gefum lasermeðferð á svæðið.“  „Að lasermeðferðinni lokinni leggjum við flipann svo á aftur,“ bætir Jóhannes við.  Hann útskýrir að flipinn verki eins og nokkurskonar plástur, en hann þarf ekki að sauma eða festa á annan hátt við augað.  Það er mikill kostur og veldur því að fólk jafnar sig hratt. 

 “Við notum afar fullkomna flipavél.  Það er mikilvægt vegna þess að með aukinni tækni á því sviði hefur minnkað mjög áhættan sem er við flipagerðina.

  

 

SCHWIND AMARIS 500E

Mynd 5. Schwind laserinn er búinn einstökum hæfileikum til að fylgja auganu eftir, svokölluð fimm-víð tækni. Hraði laserpúlsanna gerir það að verkum að hann er allt að helmingi fljótari að framkvæma aðgerðina en eldri lasertæki. Jafnframt er þess sérstaklega gætt að hita hornhimnuna sem minnst upp á meðan aðgerð stendur til að nákvæmni meðferðarinnar sé sem mest.

 

Schwind lasertækið er undratæki.  Jóhannes heimsótti verksmiðjuna í litlu þorpi nálægt Frankfurt, Þýskalandi.  „Það var frábær upplifun að koma í heimsókn þangað.  Tækin eru sett saman af mikilli natni, þekking og tækniþróun er í hávegum höfð og maður upplifði svo sannarlega hina þýsku nákvæmni, þar sem ekkert má út af bregða.  Það líkist mjög þeim vinnubrögðum sem þarf að beita í aðgerðinni sjálfri.“  Jóhannes gerði athuganir á þeim lasertækjum sem í boði eru.  „Það eru mörg tæki sem hægt er að framkvæma þessar aðgerðir með og nokkur þeirra eru úrvalstæki.  Þetta tæki hentaði okkur einna best, rannsóknir framkvæmdar til að meta útkomu aðgerða með Schwind Amaris laser sýna mjög góðan árangur hvað sjón varðar.  Það heillaði mig líka að þetta tæki getur framkvæmt svokallaða Presbymax meðferð, sem er ný tegund lasermeðferðar.“

 

 

PRESBYMAX

Þegar aldurinn færist yfir okkur harðnar augasteinninn.

Mynd 6. Augasteinninn er gráa linsan vinstra megin á myndinni. Hann er aftara linsukerfi augans, en hornhimnan, sem er bogahvelfingin yst til vinstri er fremra linsukerfið. Í LASIK aðgerð er framkvæmd aðgerð á fremra linsukerfinu, þ.e. hornhimnunni, en í augasteinsaðgerð er farið inn í augað, augasteinninn numinn brott og nýr augasteinn settur í staðinn.

 

Augasteinninn er staðsettur fyrir aftan lithimnu og er aftara linsukerfi augans, en hornhimnan er það fremra.  Þetta gerist ekki allt í einu, heldur smám saman.  Þegar við erum ung er augasteinninn mjúkur og getur breytt sér í „plúslinsu“, þ.e. safnlinsu, þegar við horfum á eitthvað nálægt okkur.  Þetta verður erfiðara með aldrinum og milli 40 og 45 ára aldurs hættum við að geta fókuserað á hluti nálægt okkur og þurfum að setja plúsgleraugu á okkur til að lesa, horfa á tölvu og senda símaskilaboð.  Þar sem enginn sleppur undan þessu er ekki hægt að kalla aldursbundna fjarsýni, eða ellifjarsýni, sjúkdóm.  Mörgum finnst þetta þó truflandi og ýmsum aðferðum er nú unnt að beita til að bæta úr þessu.  Nokkrar þeirra byggja á því að skipta um augastein og setja augastein í stað þess sem fyrir var sem er þeirrar náttúru að geta hreyfst fram á við þegar horft er á eitthvað nálægt sér.  Aðrir augasteinar eru með mismunandi svæði sem fókusera á mismunandi vegalengdir.  Þessir gerviaugasteinar hafa einnig verið kallaðir lífsstílslinsur.  Presbymax laseraðgerð byggir á því síðarnefnda, nema hér er um að ræða aðgerð á hornhimnu eingöngu, en ekki farið inn í augað og skipt um augastein. 

 

Almennt er talið að Presbymax eigi betur við hjá þeim sem eru 45-60 ára gamlir, en augasteinsaðgerð með lífsstílslinsur eigi betur við eftir sextugt.  Þetta er þó matsatriði og einnig má nefna að Presbymax aðgerð er talin eiga vel við hjá þeim sem hafa farið í hefðbundna augasteinsaðgerð og vilja auka möguleika sína til að geta lesið án lesgleraugna.

Mynd 7. Presbymax meðferðin byggir á því að meðhöndla mismunandi svæði á hornhimnu á mismunandi hátt, þannig að miðjan sé meðhöndluð fyrir nærsjón en ytra hringlaga svæðið fyrir fjarsjón.

 

 

Mynd 8. Michael Stade (54) framkvæmir aðgerðir á Schwind laser. Hann gekkst undir laseraðgerð við aldursbundinni fjarsýni og er mjög ánægður með árangurinn.

 

Dr. Michael Stade er augnlæknir við Bad Laer lækningamiðstöðina í Saxlandi í Þýskalandi.  Hann er 54 ára gamall og fór nú nýlega í Presbymax meðferð sjálfur á tækinu sem hann notar sjálfur dags daglega. Honum segist svo frá að árangurinn hafi verið framar öllum vonum, aðeins þremur vikum eftir aðgerð hafi sjón bæði nær og fjær verið orðin skörp og hann sé alla jafna laus við gleraugu við dagleg störf. Hann notaði áður fjölfókussnertilinsur en fannst þær óþægilegar í meðförum.  Hann hafi heillast af sterkum vísindalegum grunni á bak við aðgerðina og hinn góða árangur sem komið hefur út úr rannsóknum á henni.  Hann telur þetta vera bestu meðferð við vandamálum tengdum aldursbundinni fjarsýni.