fbpx

ALGENGAR SPURNINGAR

Ef þú hefur áhuga á að vita hvort laseraðgerð er rétta lausnin fyrir þig þá mælum við með að þú hafir samband og pantir tíma í forskoðun.
Hér á eftir fara nokkrar algengar spurningar varðandi aðgerðirnar.

HVERNIG VEIT ÉG AÐ ÉG SÉ HÆF/UR Í AÐGERÐ?

Þú þarft að koma í forskoðun til okkar til að meta hvort þú sért kandidat í aðgerð.  Hér eru þó meginatriðin á bak við ákvörðun okkar:

  • Augun þín þurfa að vera heilbrigð, engin gláka, ský á augasteinum, sýking, alvarlegur augnþurrkur eða annað sem gæti haft áhrif á sjón að lokinni aðgerð.
  • Þú þarft að vera a.m.k. 18 ára.  Afar sjaldgæft er að við framkvæmum aðgerð á einstaklingum yngri en 21 árs vegna þess að yfirleitt er sjónlag að breytast fram til þess tíma.
  • Sjón þarf að vera orðin stöðug, þ.e. engar breytingar á sjónlagi (augnrecepti) í 2 ár.
  • Í meðgöngu og við brjóstagjöf verður breyting á hormónum í líkamanum sem getur haft áhrif á aðgerð og árangur hennar.  Því er ekki mælt með að aðgerð sé framkvæmd á konum sem eru barnshafandi eða fyrstu 4 mánuðina sem þær eru með börn á brjósti.  Að því loknu er í lagi að framkvæma aðgerð séu aðrir þættir í lagi.
  • Ýmsir sjálfsónæmis- og bandvefssjúkdómar geta haft áhrif á árangur aðgerðar, en slíkt er einnig metið á meðan forskoðun stendur.

HVAÐ ER GERT Í FORSKOÐUN?

Þá er framkvæmd nákvæm skoðun á augum til að kanna hvort augun séu ekki algjörlega heilbrigð og hvort þau séu heppileg fyrir sjónlagsaðgerð með laser.  Sjónlag augna er kannað nokkrum sinnum, prófað er fyrir gláku, skýjum á augasteini og öðrum augnsjúkdómum. Yfirborðsmynd er framkvæmd á hornhimnu og útbúið „landakort“.  Farið verður eftir þessu landakorti þegar framkvæmd er endurmótun á hornhimnunni í LASIK-aðgerðinni.

ER LÖNG BIÐ EFTIR AÐGERÐ?

Það er regla hjá okkur að það sé aldrei lengri tími en 1-2 vikur í bið eftir aðgerð frá því að pantað er.  Ef mikið er að gera hjá okkur er bætt við aðgerðardögum, t.d. um helgar, til að unnt sé að ná því takmarki.

HVAÐ KOSTAR SVO AÐGERÐIN?

Sjá má kostnað aðgerðar hjá okkur á sérstakri verðskrársíðu hér á vefsíðunni. Jafnframt er hægt að sjá á þeirri síðu hvernig hægt er að greiða fyrir aðgerðina.

HVERSU ÖRUGG ER LASIK AÐGERÐ?

LASIK hefur verið framkvæmt um allan heim frá árinu 1990. Hún er talin vera ein af öruggustu augnaðgerðum sem framkvæmdar eru. FDA, amerísku lyfjaeftirlitssamtökin lýsir LASIK og PRK (systuraðgerð LASIK) svo: Árangur þeirra hefur verið sannaður með rannsóknum (proven), öruggar (safe) og árangursríkar (effective). Í sjónlagsaðgerðum með laser er notaður kaldur geisli sem stjórnast af tölvu í lasertækinu. Skurðlæknirinn getur hætt við aðgerð hvenær sem er. Öryggi lasertækja hefur einnig aukist með árunum og eru lasertæki byggð upp þannig að öryggis sé gætt í hvívetna. Þó verður hver og einn að gera sér grein fyrir að áhætta fylgir öllum skurðaðgerðum. Sjónlagsaðgerð er skurðaðgerð og því fylgir henni ávallt viss áhætta þótt lítil sé.

Flestar aukaverkanir eru tímabundnar. Þurr augu koma fyrir í 5-10% tilvika eftir aðgerð, oftar hjá þeim sem eru fjarsýnir fyrir aðgerð. Minnkun á rökkursjón kemur fyrir hjá 10-20% einstaklinga, en er í langflestum tilvikum komin aftur á það stig sem var fyrir aðgerð um 6 mánuðum að lokinni LASIK-aðgerð. Varanlegum áhrifum á sjón, s.s. tvöfeldni í sjón, hringjum í kringum ljós og stöfum út frá ljósum hefur verið lýst auk versnunar á sjón um 1-2 línur á sjónspjaldi. Þessar varanlegu aukaverkanir eru þó afar sjaldgæfar, í u.þ.b. 0,1-0,2 % af aðgerðum og er oft unnt að lagfæra með sérhannaðri lasermeðferð (custom laser treatment). Engum tilvikum af blindu hefur verið lýst þrátt fyrir milljónir aðgerða. Tilvikum blindu af völdum snertilinsunotkunar og brotinna glerja í gleraugum hefur hins vegar margoft verið lýst.

ER ÖRUGGT AÐ FARA Í AÐGERÐ Á BÁÐUM AUGUM SAMTÍMIS?

Flestir læknar framkvæma LASIK aðgerð á báðum augum samtímis, þ.e. hvort augað á eftir öðru. Rannsóknir hafa verið gerðar á öryggi þess og hefur komið í ljós að ekki fylgir því meira öryggi að framkvæma aðgerðir með t.d. viku millibili. Þurfi að framkvæma PRK yfirborðsmeðferð í stað LASIK-aðgerðar (aðgerðirnar eru eins, nema í LASIK-aðgerð er útbúinn flipi, ekki gert í PRK-aðgerð, sem er framkvæmd beint á yfirborð hornhimnu) er oft beðið í 1 viku á milli aðgerða þar sem það tekur nokkuð lengri tíma fyrir sjón að koma eftir PRK en LASIK.

HVAÐ TEKUR AÐGERÐIN LANGAN TÍMA?

Reiknaðu með því að vera hjá okkur í u.þ.b. 90 mínútur, það er tíminn frá því þú kemur inn til okkar þar til þú ert reiðubúin/n að fara heim. Lasermeðferðin sjálf tekur stuttan tíma, yfirleitt innan við eina mínútu. Aðgerðirnar báðar taka yfirleitt í kringum 10-15 mínútur í heild sinni. Ástæðan fyrir því að þú ert hér hjá okkur í þetta langan tíma er sú að við gefum róandi töflu fyrir aðgerðina og það tekur tíma fyrir hana að virka. Við erum heldur ekkert að flýta okkur og reynum að láta þér líða eins og þú sért heima hjá þér!

HVERNIG GENGUR AÐGERÐIN FYRIR SIG?

Þú kemur til okkar, færð Valiumtöflu til að slaka á og sest í þægilegan lazyboy.  Þegar komið er að aðgerð leggst þú niður á bekkinn okkar. Læknirinn setur deyfidropa í augun, stillir höfuðið af undir lasernum og setur létta augnsperru í kringum augað til að halda því opnu.  Þú getur því ekki lokað auganu á meðan á aðgerð stendur.  Það er allt í lagi þótt þú hreyfir augun svolítið, þar sem laserinn fylgir þér hvort sem er eftir með mikilli nákvæmni.  Hann fylgir líka höfuðhreyfingum eftir, þótt auðvitað sé best að vera alveg kyrr á meðan á aðgerð stendur.

Í aðgerðinni er útbúinn örþunnur flipi sem lagður er til hliðar og lasernum síðan beitt til að endurmóta hornhimnuvefinn.  Síðan er flipinn lagður aftur á.  Í PRK-aðgerð (innan við 1% þarf á slíkri aðgerð að halda) er enginn flipi útbúinn heldur mótar laserinn hornhimnuna beint.

Síðan færðu dropa í augun, sperran er tekin – aðgerðin er búin.  Þetta er ótrúlega skemmtileg stund og flestir sjá strax mun á sjóninni frá því fyrir aðgerð!

ER AÐGERÐIN SÁRSAUKAFULL?

Þú finnur ekki fyrir sársauka á meðan aðgerð stendur þar sem settir eru deyfidropar í augun áður en að aðgerð kemur. Fáir þurfa á verkjalyfjum að halda á eftir en það er í lagi að taka töflu t.d. af Paracetamol. Ef þú finnur fyrir verkjum í augum eftir aðgerð þá átt þú tafarlaust að hringja í öryggisnúmerið okkar. Eðlileg tilfinning í augunum að lokinni meðferð líkist helst því að vera með gamlar linsur í augunum. Daginn eftir aðgerð á þér að líða vel að mestu í augunum.  Þeir sem fara í PRK-aðgerð finna lengur fyrir einkennum, en þó yfirleitt ekki lengur en í nokkra daga að lokinni aðgerð.

HVAÐ GERIST EFTIR AÐGERÐ?

Augnlæknirinn skoðar þig og þú mátt fara heim!  Einhver þarf að sækja þig, þú ferð heim með hlífðargleraugu á þér sem þú mátt taka af þér þegar heim kemur.  Athugaðu að þú þarft að fara í apótek og ná í lyf á augndropaformi sem þú tekur eftir aðgerð (Maxidex, Oftaquix) í fjóra daga, fjórum sinnum á dag.  Jafnframt þarftu að birgja þig upp af gervitárum sem þú notar eftir aðgerðina.  Hlífðargleraugun sefur þú með á þér í fjórar nætur eftir aðgerð.  Eðlilegt er að sjónin sé þokukennd fyrst eftir aðgerð en þeir sem voru nærsýnir eru yfirleitt farnir að lesa textann á sjónvarpinu strax um kvöldið.  Þeir sem eru fjarsýnir eru oft lengur að fá fjarsjónina að lokinni aðgerð, en þeir taka strax eftir gríðarlegum mun með nærsjónina.  Eftir aðgerðina er eðlilegt að vera með svokallaða „vaselínsjón“, þ.e. sjónin sveiflast svolítið til.  Eftir nokkrar vikur verður sjónin stöðug.  Við leggjum áherslu á að ekki er hægt að meta árangur að lokinni aðgerð að fullu fyrr en eftir 3 mánuði (nærsýni) og 6 mánuði (fjarsýni og mikil sjónskekkja).

MÁ ÉG BYRJA AÐ VINNA STRAX EFTIR AÐGERÐ?

Flestir sem fara í laseraðgerð mega byrja að vinna strax daginn eftir.  Undantekning á þessu eru þeir sem eru í reykfylltu umhverfi, þar sem er mikið ryk eða rokgjörn efni eru í andrúmsloftinu eða hætta á því að fá vatn í augun.  Í þeim tilvikum mælum við oftast með því að bíða í a.m.k. 5 daga.

HVENÆR MÁ ÉG KEYRA EFTIR AÐGERÐ?

Þú mátt oftast byrja að keyra daginn eftir aðgerð.  Í einstaka tilfellum kann sjón að taka lengri tíma að verða nægilega góð.  Ef þú ert í vafa, endilega láttu einhvern keyra þig í skoðun daginn eftir aðgerð þar sem sjónin er mæld og hægt að úrskurða hvort hún sé orðin nógu góð til að mega keyra.

HVENÆR ER Í LAGI AÐ BYRJA AÐ MÁLA SIG?

Þú getur notað alla andlitsmálningu nema í kringum augun strax daginn eftir aðgerð.  Bíddu með maskarann í 1 viku að lokinni aðgerð.  Aðalmálið er að nudda ekki augun í viku eftir aðgerð.

HVAÐ ÞARF ÉG MARGAR SKOÐANIR EFTIR AÐGERÐINA?

Okkar regla er að líta á augun daginn eftir aðgerð, tveimur vikum að lokinni aðgerð og síðan 6 mánuðum eftir aðgerð. Stundum þarf að líta oftar á aðgerðina og eru þær skoðanir innifaldar í verði aðgerðanna líkt og hinar skoðanirnar.
Þriggja ára ábyrgð er á meðferð þannig að komi til þess að framkvæma þurfi fínstillingu á aðgerð innan þriggja ára er það innifalið í upphaflegu verði aðgerða.

AF HVERJU ÞARF ÉG AÐ SOFA MEÐ GLERAUGU Í 4 NÆTUR EFTIR AÐGERÐ?

Vegna þess að á næturna gæti maður nuddað augun óvart.  Meginatriðið er að nudda ekki augun í 1 viku eftir aðgerð.  Detti gleraugun af á nóttunni er það oftast hættulaust.  Ef þú finnur hins vegar fyrir verk í auganu innan við viku eftir aðgerðina skaltu láta okkur vita og hringja í neyðarnúmerið okkar.

HVAÐ ER TRANSPRK OG ER ÞAÐ ÞÁ HNÍFLAUS AÐGERÐ?

TransPRK (Trans Photorefractive keratectomy)  er háþróuð yfirborðsmeðferð með laser þar sem þekjuvefurinn er fjarlægður með mikilli nákvæmni og án aðkomu skurðhnífs. Þetta er því raunverulega hníflaus aðgerð. Augljós var fyrsta laseraugnlækningastöð hér á landi sem bauð upp á slíka hníflausa meðferð. TransPRK á einkum við í þeim tilvikum sem ekki er mælt með LASIK-aðgerð. Nokkuð lengri tíma tekur fyrir sjónina að jafna sig eftir transPRK en eftir LASIK-aðgerð og óþægindi eru meiri fyrstu dagana eftir aðgerð. Sjón er sú sama 6 vikum eftir báðar tegundir aðgerða. Minna er gengið á hornhimnu í transPRK aðgerð en LASIK og því hentar hún stundum betur í þunnum hornhimnum.

ERU EINHVERJAR HLIÐARVERKANIR EFTIR AÐGERÐINA SEM ÉG ÞARF AÐ VITA AF?

Sumt fólk finnur fyrir augnþurrki eftir aðgerð, sem er unnt að meðhöndla með gervitárum og hverfur á nokkrum vikum eða mánuðum.  Sumir sjá geisla koma út úr ljósum eða geislabaug í kringum ljós, sérstaklega þegar rökkvar.  Þetta hverfur jafnan með tímanum.  Einstaka aðili upplifir hæga bötnun á sjón eða enga.  Ef sjón versnar viljum við vita af því sem fyrst og líta á augun.  Oftast er ekki ástæða til að hafa áhyggjur því að í u.þ.b. 5% tilfella þarf að framkvæma fínstillingu á sjónlaginu með viðbótaraðgerð (innifalin í verði), en það er aldrei fyrr en 3 mánuðum eftir aðgerð í fyrsta lagi.

HVAÐ EF SJÓN BATNAR EKKI MEÐ TÍMANUM?

Hjá einstaka aðila batnar sjón hægt eða ekki eftir aðgerð.  Þetta þarf að skoða í hverju tilviki og kanna hvort þörf sé á fínstillingu eða ekki.  Í mörgum tilvikum getur þetta verið vegna þurra augna, sem hægt er að meðhöndla á ýmsan hátt, þar á meðal með gervitárum og í sumum tilvikum er settur silicontappi í táragangaop til að hindra flæði tára niður í nefkok.

ÉG ER MEÐ MIKLU FLEIRI SPURNINGAR EN ÞETTA, HVERN GET ÉG SPURT?

Besti aðilinn til að svara þeim spurningum er augnlæknir sem framkvæmir slíkar aðgerðir.  Best er að panta tíma í forskoðun hjá okkur í síma 414 7000.  Í forskoðuninni er þér frjálst að spyrja allra hugsanlegra spurninga um aðgerðina.  Við tökum tíma í að fræða þig um aðgerðina þar sem þetta er mjög persónuleg ákvörðunartaka.  Enginn getur sagt þér að fara í aðgerð og reynist þú vera kandidat í slíka aðgerð þá átt þú algjörlega valið sjálf/ur og átt ekki að láta neinn hafa áhrif á þínar ákvarðanir. Spurðu líka þá sem farið hafa í aðgerðir en mundu:  Þú átt síðasta orðið.

FORSKOÐUN

ER FYRSTA SKREFIÐ