22. Mar

LASIK hefur verið framkvæmt um allan heim frá árinu 1990. Hún er talin vera ein af öruggustu augnaðgerðum sem framkvæmdar eru. FDA, amerísku lyfjaeftirlitssamtökin lýsir LASIK og PRK (systuraðgerð LASIK) svo: Árangur þeirra hefur verið sannaður með rannsóknum (proven), öruggar (safe) og árangursríkar (effective). Í sjónlagsaðgerðum með laser er notaður kaldur geisli sem stjórnast af tölvu í lasertækinu. Skurðlæknirinn getur hætt við aðgerð hvenær sem er. Öryggi lasertækja hefur einnig aukist með árunum og eru lasertæki byggð upp þannig að öryggis sé gætt í hvívetna. Þó verður hver og einn að gera sér grein fyrir að áhætta fylgir öllum skurðaðgerðum. Sjónlagsaðgerð er skurðaðgerð og því fylgir henni ávallt viss áhætta þótt lítil sé.

Flestar aukaverkanir eru tímabundnar. Þurr augu koma fyrir í 5-10% tilvika eftir aðgerð, oftar hjá þeim sem eru fjarsýnir fyrir aðgerð. Minnkun á rökkursjón kemur fyrir hjá 10-20% einstaklinga, en er í langflestum tilvikum komin aftur á það stig sem var fyrir aðgerð um 6 mánuðum að lokinni LASIK-aðgerð. Varanlegum áhrifum á sjón, s.s. tvöfeldni í sjón, hringjum í kringum ljós og stöfum út frá ljósum hefur verið lýst auk versnunar á sjón um 1-2 línur á sjónspjaldi. Þessar varanlegu aukaverkanir eru þó afar sjaldgæfar, í u.þ.b. 0,1-0,2 % af aðgerðum og er oft unnt að lagfæra með sérhannaðri lasermeðferð (custom laser treatment). Engum tilvikum af blindu hefur verið lýst þrátt fyrir milljónir aðgerða. Tilvikum blindu af völdum snertilinsunotkunar og brotinna glerja í gleraugum hefur hins vegar margoft verið lýst.