22. Mar

Þú kemur til okkar og færð Valiumtöflu til að slaka á, sest í þægilegan lazyboy og hlustar á tónlist.  Þegar komið er að aðgerð leggst þú niður á bekkinn okkar.  Læknirinn setur deyfidropa í augun, stillir höfuðið af undir lasernum og setur létta augnsperru í kringum augað til að halda því opnu.  Þú getur því ekki lokað auganu á meðan á aðgerð stendur.  Það er allt í lagi þótt þú hreyfir augun svolítið, þar sem laserinn fylgir þér hvort sem er eftir með mikilli nákvæmni.  Hann fylgir líka höfuðhreyfingum eftir, þótt auðvitað sé best að vera alveg kyrr á meðan á aðgerð stendur.

Í aðgerðinni er útbúinn örþunnur flipi sem lagður er til hliðar og lasernum síðan beitt til að endurmóta hornhimnuvefinn.  Síðan er flipinn lagður aftur á.  Í PRK-aðgerð (innan við 1% þarf á slíkri aðgerð að halda) er enginn flipi útbúinn heldur mótar laserinn hornhimnuna beint.  

Síðan færðu dropa í augun, sperran er tekin – aðgerðin er búin.  Þetta er ótrúlega skemmtileg stund og við látum þig líta á klukkuna á veggnum – þvílíkur munur frá því fyrir aðgerð!