fbpx

Flestir þekkja einhvern sem farið hefur í laseraðgerð eða laseraðgerðir á augum.  Milljónir manna hafa losnað við gleraugu og snertilinsur eða orðið minna háðir þessum hjálpartækjum. Langalgengasta tegund laseraðgerðar er LASIK-aðgerðin. Fyrsta LASIK-aðgerðin markaði byltingu hér á landi þegar hún var framkvæmd árið 2000, en það var heilum 10 árum eftir að læknarnir Pallikaris og Buratto framkvæmdu fyrstu aðgerðirnar.

Nú er LASIK ein algengasta aðgerð sem framkvæmd er hér á landi – hún hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem örugg aðferð til að verða minna háður eða óháður gleraugum.  Tilkoma Augljós laser augnlæknastöðvar markar enn ein tímamót í laserlækningum hér á landi, þar sem ný tækni, reynsla og þekking koma saman.  Jóhannes augnlæknir framkvæmdi sína fyrstu laseraugnaðgerð árið 2000 og hefur síðan framkvæmt yfir 15.000 slíkar aðgerðir.  Hann er lærður hornhimnusérfræðingur frá einum virtasta augnspítala í Bandaríkjunum, Duke Eye Center í Norður-Karólínu og lærði þá jafnframt að framkvæma laseraugnaðgerðir undir leiðsögn hornhimnusérfræðinga auk þess að framkvæma tugi hornhimnuskipta og meðhöndla erfið hornhimnuvandamál.

Tækin sem notuð eru til að framkvæma þessar aðgerðir eru að sjálfsögðu afar mikilvæg þar sem tæknin tekur stöðugum framförum.  Lasertækið okkar er eitt það fullkomnasta í heimi og engu til sparað.  Schwind er leiðandi í lasertækninni, útbýr einstaklega nákvæman prófíl á hornhimnuna og er lasergeislinn úr þessu tæki útbúinn afar fullkomnum fylgieiginleikum (1MHz), sem gera það að verkum að laserinn fylgir auganu hvert sem það snýr.  Þetta eykur mjög á nákvæmni meðferðarinnar.  Jafnframt er hraði meðferðarinnar tvöfalt meiri en hefðbundinna lasertækja og tekur meðferðin t.d. um helmingi styttri tíma en hingað til hefur tíðkast.

LASIK – GANGUR AÐGERÐAR

Við spyrjum Jóhannes um hvað LASIK-aðgerð snúist.

Mynd 4. Hér er teiknuð mynd af hornhimnu með flipa sem búið er að leggja til hliðar. Flipinn á þessari mynd er öllu þykkari en raunverulega gerist í aðgerð.

Hér er teiknuð mynd af hornhimnu með flipa sem búið er að leggja til hliðar. Flipinn á þessari mynd er öllu þykkari en raunverulega gerist í aðgerð.

“Það getur verið snúið í byrjun að átta sig á eðli aðgerðarinnar, “ segir Jóhannes.    “Meginatriðið er að átta sig á byggingu augans.  Í aðgerðinni búum við til flipa á hornhimnuna, en gott er að líta á hornhimnuna sem einskonar glæra hvelfingu framan á auganu.  Í aðgerðinni snýst allt um hornhimnuna.  Við förum aldrei inn í augað sjálft, heldur vinnum bara á glugganum, þ.e. hornhimnunni.“

Hann útskýrir frekar: „Við útbúum flipa, eða skífu, á hornhimnuna með sérstakri flipavél.   Þessi flipi er fastur á hjör, þ.e. við tökum ekki skífuna af hornhimnunni, heldur er henni ætlað að hlífa aðgerðarsvæðinu.  Við útbúum sem sagt flipann, leggjum hann til hliðar og gefum lasermeðferð á svæðið.“  „Að lasermeðferðinni lokinni leggjum við flipann svo á aftur,“ bætir Jóhannes við.  Hann útskýrir að flipinn verki eins og nokkurskonar plástur, en hann þarf ekki að sauma eða festa á annan hátt við augað.  Það er mikill kostur og veldur því að fólk jafnar sig hratt.

“Við notum afar fullkomna flipavél.  Það er mikilvægt vegna þess að með aukinni tækni á því sviði hefur minnkað mjög áhættan sem er við flipagerðina.

HVERJUM HENTAR LASIK?

LASIK er lasermeðferð sem er notuð til að leiðrétta nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.  Með þessari aðgerð getur einstaklingur orðið minna háður gleraugum og snertilinsum.  Gleraugu eru hamlandi við útiveru og íþróttir og stundum bæta gleraugu ekki nægilega vel úr sjón þeirra sem eru með mikla nærsýni eða sjónskekkju.  Að vera minna háður eða óháður gleraugum getur verulega bætt lífsgæði margra einstaklinga.  Gufa úr sundlaug, móða af hestum, innan á vélhjólahjálmi eða fitubrák á glerinu í miðri fjallgöngu.  Margir geta nýtt sér snertilinsur.  Þrátt fyrir að þær veiti frelsi frá gleraugum geta þær aukið á augnþurrk og augnofnæmi.  Í alvarlegum tilvikum geta þær skaðað yfirborð hornhimnu vegna súrefnisskorts og jafnvel valdið alvarlegum augnsýkingum sem geta skaðað sjón og jafnvel valdið blindu.

Í forskoðun fyrir LASIK-aðgerð er athugað hvort þú sért kandidat í laseraðgerð.  Þessi atriði skipta þá sérstaklega máli:

1. Stöðugt sjónlag (þ.e. ekki breyting á gleraugnavottorði) í 2 ár.

2. Heilbrigð augu að öðru leyti en að vera með sjónlagsgalla.  Einstaklingar með augnsjúkdóm eins og keiluglæru, gláku, eða ský á augasteini eru ekki góðir kandidatar í aðgerð.

3. Hornhimnur mega ekki vera of þunnar, kúptar eða of flatar.

4. Heilbrigði almennt skiptir einnig máli.  Einstaklingar með alvarlega sjálfsofnæmissjúkdóma, sykursýki, bandvefssjúkdóma og gigtsjúkdóma eru ekki heppilegir kandidatar í aðgerð.

5. Væntingar skipta miklu máli.  Við viljum að einstaklingar spyrji spurninga fyrir aðgerð til að átta sig á kostum og göllum hennar.  Við erum ólík innbyrðis og með mismunandi sjónþarfir.  Eftir 45 ára aldur er t.d. líklegt að viðkomandi þurfi lesgleraugu til að lesa smátt letur ef framkvæmd er hefðbundin LASIK-aðgerð.  Sé framkvæmd Presbymax aðgerð þá er viðkomandi meira og minna laus við gleraugu bæði frá sér og nær sér en nær hugsanlega ekki alveg sömu skerpu frá sér og sá sem fer í hefðbundna meðferð.  Því er nauðsynlegt að hver og einn átti sig vel á því fyrirfram hvað henti sér best.